Jólaferð um Íberíuskaga 2003

1 - annar hluti - 3 - 4

Salamanca - Évora

Frá Salamanca lá leiðin til Portúgal. Það er mjög ólíkt Spáni á marga lund, og portúgalskan alveg óskiljanleg óþjálfuðu eyra. Spænskan var hins vegar orðin ansi kunnugleg.

Um portúgölsku: Portúgalska minnir um margt á spænsku þegar hún er lesin en er gerólík í tali. Þar sem er l í spænsku má gera ráð fyrir að sé r í portúgölsku, til dæmis verður plaza að praca og plata að prata. Þá rákum við augun í bar sem heitir eftir frægri persónu úr Tinnabókunum, Coronel Tapioca.

Ekið var um hrikalega fagurt hálendi, með ánni Rio Tejo á leið til Évora, yfir ótal brýr, og víst þótti okkur hafa hlýnað í veðri. Þá varð til vísukornið sem var sent með sms.

Klappir, mýrar, klettabelti,
klungur, fjöll og skógar.
Vappi síðar, víða sveltir,
vellir, hlíðar, villigeltir.

Við þjóðveginn áðum við á bensínstöð þar sem aðstaða var til fyrirmyndar, kaffið kjarngott, gulrótarkaka dísæt, internetaðgangur greiður og hvaðeina. Portúgal lagðist vel í okkur allt frá fyrsta degi. Það sem helst einkennir landslagið eru ólífutrén og korktrén sem vaxa í reglulegum röðum í hlíðunum, ennfremur eucalyptustré sem börkurinn vill flagna af, appelsínutré og sítrónutré. Síðar sáum við líka mikið af aldintrjám og vínviði, en alls staðar eru furðulegir kastalar, virkisrústir og ábúðarmiklir búgarðar.

Á aðfangadag jóla, 24. desember, skoðuðum við eldfornan bæ með þröngum götum og flottum kastala. Að skoðunarferð lokinni lá leiðin niður á ráðhúspláss þar sem þorpsbúar virtust vera að bíða eftir einhverju, kannski jólunum. Þar fengum við okkur eiturgott kaffi og rákum augun í að kirkjuklukkan var vitlaus, heilum klukkutíma of sein. Já, þorpsbúum var ekki of gott að bíða... Við nánari athugun kom í ljós að það vorum við sem vorum vitlaus og tímavillt. Portúgal er nefnilega ekki á norskum tíma, eins og svo mörg önnur ríki í þessari álfu heldur er það í sama tímabelti og Ísland.

Frá Salamanca til Évora eru 466 km: 41.000 íbúar. Helstu atvinnugreinar eru vefnaður, járnbræðsla og korkvinnsla. Bærinn er að mestu umkringdur gömlum virkismúr en var þó hertekinn af márum árið 715. Þar má meðal annars finna dómkirkju í gotneskum stíl frá 13. öld og rústir af Díönuhofi en fyrir meira en tvö þúsund árum síðan voru á þessum slóðum bækistöðvar Rómverja.

Jól í Évora

Að kvöldi 24. desember leið okkur eins og Jósep og Maríu. Okkur var sagt að allt væri lokað, líka á hótelinu sem við gistum á, en við höfðum reiknað með að gera snarlað þar lítillega, í versta falli. Við röltum inn fyrir borgarhliðið og þá þótti okkur dauflegt um að litast, ekkert virtist opið.

Bakaradrengurinn og faðir hans

Loks rákumst við á bakarí þar sem verið var að ganga frá fyrir lokun. Svifum við þangað inn vongóð og inntum brosmildan bakaradreng eftir því hvort nokkuð væri opið í borginni, um leið og við festum kaup á forláta jólabrauði með hnetum og möndlum að narta í ef allt um þryti. Faðir drengsins sá aumur á okkur og hringdi í allar áttir, spyrjandi um hátíðaropnun. Gerðust þeir feðgar vondaufir um slíkt, en svo voru þeir uppteknir af reddingum að þeir gleymdu að afgreiða aðra aðvífandi. Loks kom þeim saman um að liklega væri sá kínverski opinn, þar sem Kínverjar væru ekki vel kristnir. Við gengum út hugsandi sem svo: Djúpsteiktar rækjur geta víst verið jólalegar.

Er við nálguðumst aftur borgarhliðið þar sem við höfðum farið inn höfðum við enn ekki rambað á þann kínverska. Leiðin lá framhjá fínu hóteli og var starfsstúlka í gestamóttöku innt eftir opnum stöðum yfir hátíðar. Hún lagði til að við borðuðum þar á staðnum, en þar væri matur framreiddur til kl. tíu. Við gerðum það og sáum ekki eftir því. Allir fengu sér saltfisk og þjóðlegan eftirrétt, einn á mann. Þetta var í raun annað jólahald ársins.

Jóladagur

Við fórum í morgungöngu um bæinn en sáum ekki mikið af fólki en þeim mun meira af furðufuglum. Í almenningsgarði bæjarins voru nokkrir páfuglar á vappi í kringum lítinn kettling sem lét sér fátt um finnast. Eina fólkið sem við hittum voru túristar eins og við, frönsk hjón sem við höfðum hitt áður í morgunverðinum á hótelinu.

Á leiðinni út fyrir borgarmúrana aftur sáum við að sá kínverski reyndist opinn en við höfðum öðrum hnöppum að hneppa. Hann hafði þá verið lokaður kvöldið áður þrátt fyrir allt.

Síðar um daginn keyrðum við um nærsveitir Évora og hringdum heim til Íslands til að bjóða gleðileg jól. Við heimsóttum steinaldarmannvirki sem víða er að finna þarna og borðuðum jólabrauðið góða í þyrpingu bautasteina og skoðuðum síðan byggingu af gerðinni dolmen í fögru umhverfi.

Beware of: A Typical Medieval...

Á jóladag voru aðeins fleiri staðir opnir en sá kínverski og við skelltum okkur á einn sem sérhæfði sig í miðaldamat. Okkur fannst hann spennandi eftir öll miðaldaþorpin sem við höfðum skoðað fyrr um daginn, en slíkir staðir verða þó ekki prófaðir aftur í bráð.

Hnuss! Mörlandinn lætur ekki bjóða sér hvað sem er þegar soðinn saltfiskur er annars vegar. Við getum rifið í okkur skinnhandrit ef okkur langar í mat frá miðöldum, thank you very much. Ætli frönsku hjónin úr morgunmatnum hafi haft vit á að senda sinn saltfisk aftur til föðurhúsanna?

Eins og venjulega á jólunum spiluðum við nokkrar umferðir af kana og notuðum til þess ráðstefnusal hótelsins.

Évora - Faro

Við keyrðum þrönga og hlykkjótta fjallvegi suður á bóginn og til Faro og vorum heldur lúin eftir túrinn þann. Útsýnið ofan af fjallveginum fór ofan garðs og neðan vegna þess hve erfitt var að halda morgunmatnum niðri. Eftir því sem sunnar dró hækkaði hitinn og var hitamet ferðarinnar slegið í Algarve: 18,5°C.

Þarna ber mest á korkbúskap og reyndar líka möndlutrjám en þau blómstra ekki fyrr en seint í janúar.

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelinu lá leiðin niður á strönd að spila frisbí og síðar röltum við um gamla bæinn í Faro. Okkur gekk vel að finna bílastæði niðri í bæ því það var einhver sem hafði atvinnu sína af því að lóðsa bílum inn í stæði. Svo mikið er víst að hann var ekki á vegum borgarinnar en við borguðum honum engu að síður eina eða tvær evrur fyrir erfiðið. Við sáum síðar að þetta er fjölmenn atvinnugrein í Portúgal.

Við vorum ekkert sérstaklega hrifin af Faro en fannst gott að koma í hlýtt loftslag niðri við sjó. Við sáum skilti sem taldi niður dagana þangað til að Evrópumótið í fótbolta byrjar en alls staðar í Portúgal má sjá merki þess að verið sé að undirbúa landið undir þetta stórmót og mikinn fjölda erlendra ferðamanna. Þegar við töldum okkur hafa skoðað bæinn temmilega vel og vorum komin með leið á jólalögunum úr ljósastaurunum drifum við okkur heim á hótel aftur og spiluðum púl það sem eftir lifði kvöldisns. Kvenfólkið vann karlpeninginn með fjórum vinningum gegn fimm.

Okkur til mikillar furðu mættum við frönsku hjónunum sem nú voru okkur orðin að góðu kunn. Ekki var nóg með að þau hafi elt okkur út um allar trissur í Évora heldur fylgdu þau okkur líka suður til Algarve! Fyrr má nú elta mann á röndum.

Frá Évora til Faro höfuðborgar Algarve eru 363 km: 40.000 íbúar. Helstu atvinnugreinar fyrir utan ferðamannaiðnaðinn, eru: landbúnaður (maís-, döðlu-, möndlu- og ólífurækt) og fiskveiðar.

Hér lýkur öðrum hluta ferðasögunnar. Næsti hluti fjallar að mestu um höfuðborgina Lissabon.

Smellið hér til að lesa næsta hluta ferðasögunnar