Inngangur
Í okkar fjölskyldu er komin hefð á jólaferðir. Sú hefð byrjaði þegar við fórum ásamt Völu og Óliver í mikla skemmtiferð suður til Mexíkó þar sem við sváfum í tjaldi á ströndinni öll jólin, köfuðum í Kaliforníuflóa og borðuðum taco pescado í öll mál.
Strax í haust fórum við að huga að því hvert fýsilegast væri að fara í jólaferð ársins. Okkur langaði mikið að fara á framandi slóðir og var Afríka ofarlega á blaði yfir draumastaði til að verja jólunum á. Við skoðuðum ferðabæklinga í gríð og erg og vorum eiginlega alveg búin að ákveða að panta ferð til Egyptlands en þegar kom að því að kaupa miðana reyndist allt vera uppselt um jólin.
Við þurftum ekki að örvænta lengi því skömmu síðar var hringt frá Karlsson fjölskyldunni í Frakklandi sem stakk upp á því að við skyldum fara öll saman í langan bíltúr um Íberíuskagann, og þá sérstaklega um Portúgal. Þau voru nefnilega nýbúin að kaupa sér BMW sem þau vildu prófa á löngum vegalengdum.
Að morgni nítjánda desember flugum við til Parísar og tókum hraðlestina til Rennes. Við vorum bæði ansi þreytt, enda nýbúin í prófa-, ritgerða- og greinatörn sem lauk raunar ekki fyrr en daginn áður en við fórum út. Við hvíldum okkur í einn dag áður en við lögðum af stað í bíltúrinn mikla.

Litlaklaustur - Dax
Að morgni Zappamessu var lagt af stað frá Litlaklaustri (Montreuil-sur-Ille) suður á bóginn. Við höfðum meðferðis leifar frá þjófstarti jólahalds kvöldinu áður, smyrjibrauð með laxi sem hver jómfrú hefði verið fullsæmd af, hunangssteiktar rauðar bretónskar kartöflur og kastaníusteik með villisveppum. Ennfremur var með í för vænn stampur af apótekaralakkrís, tæp tvö pund, auk annarra smálegra smjattsalmíakmola, þeirra killerbon og félaga.
Ekki var áð fyrr en í héraðinu Vendée, en fyrsti náttstaðurinn var Dax í Löndunum, heilsulindarbær á Baskaslóðum. Þá vildi svo heppilega til að flestir voru komnir í síðar, enda vetur genginn í garð með sólstöðum og allra veðra von.
Þar var að sjálfsögðu farið í heilsubað að hætti Frakka þar sem allar laugar voru jafnheitar eða kaldar eftir því hvernig á það er litið. Gufubað staðarins var reglulega úðað með eucalyptus-essens sem fullkomnaði slökunina.
Daginn eftir fórum við í göngutúr eftir merktri gönguleið sem lá yfir ævagamla rómverska brú og skóglendi. Gamanið tók að kárna þegar leiðin hélt áfram meðfram umferðargötu sem virtist engan enda ætla að taka. Þá byrjaði líka að hellirigna sem var ekki til bæta ástandið svo við snerum við og fórum heim á hótel í heitt bað til að hlýja okkur.
![]() |
Eftir hádegið þegar fötin voru orðin þurr fórum við í skoðunarferð um nágrannabæi Dax og urðum þá margs vísari, sáum meðal annars að háspennuvírar vaxa á trjám. Alls staðar var mikil jólastemmning, kannski einum of í Hossegor þar sem væmin jólalög streymdu úr ljósastaurunum. Undir kvöld keyrðum við til borgarinnar Bayonne, keyptum baskneskan pipar og póstkort og röltum um bæinn. Við settumst inn á kaffihús og smökkuðum hina basknesku sídru sem er býsna ólík þeirri bretónsku, en alveg ægilega góð.
Dax - Salamanca
Á Þorláksmessu lá leiðin suður til Spánar þar sem öll skilti voru í fyrstu á basknesku og með öllu óskiljanleg. Við hlustuðum á útvarpið og gripum eitt og eitt orð, lærðum meðal annars að bai þýðir já á basknesku. Í Pýreneafjöllunum sáum við snjó, þann eina þessi jólin. Á spænsku hraðbrautinni keyrðum við fram úr nágrönnum af Bretagne-skaga sem veifuðu okkur eins og siður er hér um slóðir. Við veifuðum að sjálfsögðu á móti. N'eo ket?
![]() |
Háskólabærinn Salamanca var fyrsta stopp á Spáni fyrir utan fjöldamörg kaffistopp en þar gistum við í eina nótt. Það fyrsta sem við tókum eftir var að Salamanca var full af froskakúltúr, kunna hlustendur skýringu á því? Hún var líka full af skrautlegum byggingum og þar borðuðum við paella á hlaupunum. Þar var íslenski fáninn greyptur í brúarstólpa.
Bréf úr framtíðinni. Þessi innrammaði kafli er tekinn úr dagbókinni og var skrifaður nokkru síðar en meginmál ferðasögunnar, eftir að skýring fékkst á froskaæðinu í Salamanca.
Froskabærinn Salamanca
Í háskólabænum Salamanca á Spáni er heilmikill froskakúltur. Við stoppuðum þar í eina nótt á leiðinni til Portúgal rétt fyrir jólin og heilluðumst af stemningunni. Froskurinn virðist vera einkennisdýr bæjarins og þarna eru allar túristabúðir stútfullar af froskavarningi. (Stella keypti handa mér froskalyklakippu.) Okkur krossbrá auðvitað því fyrirfram höfðum við ekki hugmynd um að Salamanca væri vinabær froskur.net...
Við sáum enga lifandi froska en þeim mun fleiri storka sem sátu sposkir í hreiðrunum sínum uppi á skorsteinum og kirkuturnum. Storkar leggja sér helst ekkert annað til munns en froska svo eitthvað hlýtur að vera af þeim í nágrenninu. Það eitt og sér dugir samt ekki til að útskýra hvers vegna íbúar Salamanca eru með froska á heilanum.
Ég fékk skýringuna við kvöldverðarborðið í Barcelóna þremur vikum síðar. Þá sat ég við hliðina á Spánverja sem reyndist vera frá Castilla y León héraði, nánar tiltekið frá háskólabænum Salamanca. Ég spurði hann að sjálfsögðu hvað væri eiginlega málið með alla þessa froska og fékk þá að heyra eftirfarandi sögu.
Falinn hlutur
Háskólinn er frá þrettándu öld en aðalinngangurinn var byggður úr sandsteini á þeirri fimmtándu. Sandsteininn er auðvelt að móta og á þessum tíma var hinn svokallaði plateresc stíll allsráðandi en hann einkennist af íburðarmiklum skreytingum sem minna á silfursmíð.
Einhvers staðar á þessari framhlið er froskur falinn. Hjátrúin segir að ef stúdentar finna froskinn áður en þeir fara í próf muni þeim ganga vel og ná prófinu. Það er því mörg hundruð ára gamall siður að reyna að finna froskinn og smám saman varð hann, eins og áður sagði, að einkennisdýri borgarinnar.
Í gegnum aldirnar hefur sandsteinninn veðrast og nýlega lét borgarstjórinn lappa upp á skreytinguna. Við sama tækifæri ákváð hann að bæta við einum óvæntum aðskotahlut, nefnilega geimfara!
Við höfðum því miður ekki hugmynd um þetta allt saman þegar við vorum í Salamanca og misstum því af því að leita að froskinum og geimfaranum. Spænski sessunautur minn bauðst hins vegar til að senda mér póstkort með mynd af þeim. Póstkortin komu í gær.
Hér lýkur fyrsta hluta ferðasögunnar. Næsti hluti fjallar meðal annars um hálendi Portúgals, Kristilega stuðbæinn Évóra og Algarve.