Jólaferð til Bahía de Los Angeles

Mexíkanski fáninn

Efnisyfirlit

  1. Sex akreinar í hvora átt
  2. Landamærin og fyrsta margarítan
  3. Kaktusarnir verða stærri og stærri
  4. Þorlaksmessa með skjaldbökum og skötum
  5. Jólin á íslenskum tíma
  6. Skeljar í jólamatinn
  7. Kajakar og flugdrekar
  8. Á safninu
  9. Úthverfi Ensenada könnuð
  10. Miðborg Ensenada gerð góð skil
  11. Komin heim aftur
  12. Ítarefni

Sex akreinar í hvora átt

Fimmtudagur 20. desember

Ferðin byrjaði hálf brösuglega hjá okkur Kristjáni. Við byrjuðum á því að verða næstum því bensínlaus í innkeyrslunni á Berkshire Terrace og rétt náðum út á bensínstöð. Eftir að hafa fyllt bílinn af bensíni, sem kostar minna en $1 gallonið, lögðum við af stað í hellirigningu og kolniðamyrkri.

Leiðin lá til Pasadena. Þar var ætlunin að gista í eina nótt hjá Völu og Óliver og leggja síðan af stað daginn eftir til Mexíkó.

Úr dagbókinni:

Á föstudagsmorguninn leggjum við af stað í jólaferðina okkar. Við ætlum að keyra til Mexíkó með Völu og Óliver og þar ætlum við að vera í um það bil viku - í tjaldi!

Við Kristján erum tiltölulega ferðavön en erum samt engir skátar. Venjulega ferðumst við á milli borga til að skoða söfn og kaffihús. Vala og Óliver eru hins vegar þrælvön útivist eftir stóru heimsreisuna þeirra hérna um árið og það verður því gott fyrir okkur að fara með þeim. Þau verða sérfræðingarnir okkar í ferðamálum.

Staðurinn sem við ætlum að fara til heitir Bahía de Los Angeles og hann er á miðjum Kaliforníuskaga. Það ku vera mjög fallegt þarna og flóinn er víst afbragðsgóður til seglbrettaiðkunar. Óliver sér um seglbrettið, en við hin ætlum að leika okkur á ströndinni, kafa og fara í göngutúra.

Á jóladag ætlum við að fara í kaþólska messu með innfæddum. Ííi ég hlakka svo til!

(Hlekkur á þessa færslu í dagbókinni)

Þegar við vorum komin inn í L.A. byrjuðu þrumur og eldingar og rigningin jókst til muna, umferðin gekk hægt og við sáum ekki á umferðarskiltin lengur. Tvisvar sinnum var nærri því búið að keyra inní hliðina á okkur; annars vegar 30 m langur bílaflutningabíll og hins vegar 3 milljón króna Benz. Við rétt sluppum við þá með því að sveigja inn á næstu akrein. Nóg var af þeim, sex í hvora átt.

Við sáum aldrei afreinina sem við áttum að fara og enduðum á því að keyra inn á einhverja JPL-NASA stöð. Þar stóðu lögreglumenn á vakt og voru vægast sagt hissa þegar við sögðumst vera að villast. Við komumst út á hraðbrautina aftur eftir smá útúrdúra og reyndum aftur að finna réttu afreinina. Hún fannst reyndar ekki en við fundum þó götuna þeirra Völu og Ólivers á endanum eftir að hafa farið út af hraðbrautinni á allt öðrum stað en við ætluðum. Ferðin tók þrjá klukkutíma, en tekur venjulega tæpa tvo. Mikið var gott að koma til Völu og Ólivers í hlýjuna, blaut og hrakin.

Undirbúningur ferðarinnar hafði tekið nokkra daga og allan tímann hugsuðum við um kaffi.

Kaffi í eyðimörkinni
Við erum ekki með neinn útbúnað fyrir tjaldferðalag. Okkur vantar tjald, svefnpoka, dýnur, hlý föt, ... Það eina sem við erum með er kaffikannan okkar og góða skapið.

Sennilega getum við fengið lánað tjald og einn svefnpoka hjá Gunna og Sollu, en ég held að eyðimerkurnæturnar geti orðið svolítið kaldar og því er vissara að redda sér einangrunardýnu. Sem betur fer tók ég með mér húfu og trefil til Kaliforníu (hvers vegna í ósköpunum?! spurðu sumir) svo ef það verður mjög kalt í tjaldinu þá sef ég bara með húfuna.

Okkur var ráðlegt að taka sem mest af matnum með okkur frá Bandaríkjunum. Kaupfélagið þarna ku vera heldur fátæklegt og ekki víst að ofdekraðir Íslendingar finni þar allt í jólamatinn. En þótt jólamaturinn verði kannski hálfskrítinn eldaður á prímus þá fáum við að minnsta kosti almennilegt kaffi eftir matinn.

(Sjá nánar um undirbúninginn á dagbókinni)

Þegar við komum til Völu og Ólvers fengum við pizzu og kók, en létum kaffið bíða.

Landamærin og fyrsta margarítan

Föstudagur 21. desember

Við vöknuðum klukkan fimm um morguninn, eftir að hafa sofið í þrjá klukkutíma, því í ferðaáætluninni var gert ráð fyrir því að hitta Greg og Kathy við landamærin klukkan átta. Það tók sinn tíma að raða inn í bílinn þar sem við vorum með ótrúlegt magn af dóti með okkur. Við settumst í aftursætið á bílnum og síðan var dótinu raðað ofan á okkur svo við gátum okkur hvergi hrært.

Bíllinn klyfjaður á þakinu Takið sérstaklega eftir appelsínugula sjópokanum

Sökum hellirigningar komum við heilum fjörutíu mínútum of seint að landamærunum þar sem Greg og Kathy biðu eftir okkur. Við drifum í því að kaupa tryggingu, en hana þarf maður að kaupa þegar farið er á bíl yfir til Mexíkó, og svo var keyrt af stað aftur. Á landamærastöðinni fengum við stimpil í vegabréfin og vorum svo skyndilega komin til Mexíkó. Kristján er nú kominn með 31 stimpil í vegabréfið sitt.

Þjóðvegur eitt í Mexíkó liggur í gegnum fátækrahverfi landamæraborgarinnar Tijuana, við okkur blöstu hræðilega ljótir kofar í hrúgum og fátæktin þarna er greinilega mjög mikil. Fljótlega komum við út fyrir borgina og þar tók ekki betra við. Alls staðar meðfram þjóðveginum var rusl, og það ekkert smá magn, jafnvel þótt það stæði skýrum stöfum að bannað væri að henda rusli á veginn.

Það er tveggja daga akstur frá Pasadena til Bahía de Los Angeles svo við þurftum að finna stað til að gista á í eina nótt. Þegar það tók að dimma komum við að tjaldstæði í San Quintin sem bauð uppá allt sem við þurftum, heita sturtu og bar.

Tjaldið fengum við lánað frá Gunnari. Þetta er grænt braggatjald og gólfflöturinn er akkúrat nógu stór til að rúma uppblásna vindsæng, queen size.

Úr dagbókinni: Miðvikudagur 19. desember 2001

Við eyddum öllu hádeginu í að prófa að tjalda tjaldinu hans Gunna. Við höfðum ekki hugmynd um hvernig tjald þetta væri og svo virðist sem Gunni hafi ekki alveg verið klár á því heldur, skilaboðin sem við fengum frá honum voru: Súlurnar eiga að krossast, eða ekki...

Við prófuðum allar hugsanlegar útgáfur að staðsetningu súlnanna, snerum tjaldinu útum allt og vorum nærri dottin útí sundlaug við aðfarirnar. Að lokum komumst við þó að viðunandi niðurstöðu eins og myndir dagsins sýna.

(Hlekkur á þessa færslu í dagbókinni)

Við tjölduðum í kolniðamyrkri og roki, fegin að hafa prófað að tjalda tjaldinu áður en við fórum af stað, og þrömmuðum síðan á barinn. Þar logaði eldur í arni og fullt af kúrekum sátu við barborðið. Við pöntuðum okkur kokhraust margarítur, þjóðardrykk Mexíkóa, en dauðbrá þegar komið var með þær. Glösin voru vægast sagt í stærra lagi og tekílamagnið ansi mikið. Eftir nokkra sopa vorum við eiginlega búin að fá nóg, en ekki mátti leifa svo allir hömuðust við að klára. Þegar glasin voru loksins orðin tóm ultum við út á tjaldstæðið aftur, elduðum kvöldmat og fórum að sofa. Þessi fyrsta nótt var frekar köld.

margaríta Margaríta
er mexíkóskur kokteill sem allir ferðamenn verða að smakka. Meginuppistaðan er tekíla, limesafi og ís en flesir bæta við appelsínulíkjör. Áður er drykkurinn er borinn fram er glasiröndin er bleytt í limesafa og henni svo dýft í salt. Hér er hægt að lesa meira um þennan sögufræga drykk.

Kaktusarnir verða stærri og stærri

Laugardagur 22. desember

Dagurinn fór eiginlega allur í akstur. Við stoppuðum þó reglulega á fallegum útsýnisstöðum til að teygja úr okkur og til að taka myndir og við þurftum einnig að stoppa þegar Econoline-inn sem Greg og Kathy voru á bilaði. Allt í einu fór grænt, sjálflýsandi og illa lyktandi slím að leka frá vélinni og inn í bílinn. Þessi bilun kallaði á skjót viðbrögð, vasaljós og snyrtimennsku. Viðgerðin tókst alveg ágætlega þrátt fyrir að ekkert okkar væri sérfræðingur í þessum málum.

Bíllinn fór eitthvað að kvarta Óliver að leika bifvélavirkja

Á meðan viðgerðin stóð yfir skoðuðum við kaktusana í nágrenninu. Þegar þarna var komið sögu voru kaktusar út um allt og eftir því sem sunnar dró fjölgaði þeim ekki aðeins heldur stækkuðu þeir líka. Á Kaliforníuskaganum vaxa 120 tegundir af kaktusum, þar af eru 80 sem hvergi vaxa annars staðar. Eftir að hafa kannað málið gaumgæfilega komumst við að þeirri niðurstöðu að "Lukku-Láka kaktusarnir" eru sjaldséðastir, þriggja- eða fleiri arma kaktusar eru mun algengari.

Stella við einn risastóran Óliver að taka mynd af einum rauðum Óliver, Vala, Stella og kaktusarnir

Greg varð nú ekkert alltof hrifinn þegar bíllinn hans bilaði þar sem hann er skipulagður með eindæmum og þessu hafði hann ekki gert ráð fyrir. Áður en ferðin hófst lét hann yfirfara allan bílinn svo að ekkert þessu líkt kæmi uppá.

Greg og Kathy voru frábærir ferðafélagar, hún hæglát og róleg en hann var með allt á hreinu og vildi gera hlutina eftir sínu höfði. Hann var svo skipulagður að við vorum stundum dálítið hrædd við hann. Í byrjun ferðar vorum við með ótrúlegt magn af dóti í bílnum, aðallega mat, svo við báðum þau að taka hluta af því svo við kæmumst nú öll fyrir í Hondunni. Það var auðsótt en við föttuðum það eftir á að líklega hefði verið betra að sleppa því. Greg var nefnilega búin að raða öllu dótinu sínu inn í bílinn á ákveðinn hátt, til dæmis var hann búinn að setja potta, pönnur og hnífapör inn í frauðplast svo ekki myndi nú skölta í því á leiðinni, en eftir að okkar dót var sett inn fór skipulagið fyrir lítið og ábyggilega hefur skrölt í því sem aldrei fyrr!

Greg Greg
hefur rekið seglbrettabúð í L.A. í rúmlega tuttugu ár. Hann er áhættufíkill og stundar jaðarsport af miklum krafti, samt er hann snyrtipinni og óhemju skipulagður í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.
Kathy Kathy
er kærastan hans Gregs og hún hefur unnið í búðinni hans í mörg ár. Kathy er mun rólegri en Greg en hefur engu að síður gaman af seglbrettum. Hún var samt oftast bara að horfa á.

Vinir Greg og Kathy, Kenny og Doreen, gerðu dálítið grín að þeim og sögðu okkur meðal annars að ferðaklósettið sem Greg hafði sýnt okkur svo stoltur væri í raun jólagjöfin hans til Kathy! Svo skemmtilega vildi til að Greg hafði saumað hlíf utan um klósettið þannig að þegar það var ekki í notkun var það í raun bara kassi, í stíl við aðrar innréttingar í bílnum, og kassann mátti nota bæði fyrir borð og sæti. Mikið var hann ánægður með þessa græju, hins vegar gerum við ráð fyrir að Kathy hafi ekki verið eins hrifin...

Þorláksmessa með skjaldbökum og skötum

Sunnudagur 23. desember

Við vöknuðum á sama stað og við tjölduðum kvöldið áður, en þá var svo dimmt að við þekktum ekki staðinn aftur. Það voru innan við 20 metrar frá tjaldinu okkar og útí sjó en þegar við tjölduðum höfðum við ekki hugmynd um hvar hafið væri. Á þessum slóðum er alltaf rok og Greg hafði varað okkur við því, kallaði bæinn dirty windy little town, svo við vorum fegin að við gátum tjaldað undir litlu skýli sem var gert úr kaktus.

Tjaldbúðirnar Vala og Óliver að vakna

Við hliðina á tjaldstæðinu voru skjaldbökur í stórum kerjum. Þeim er haldið þarna í einhvern tíma, frá því þær veiðast og þangað til þeim er sleppt aftur. Þá er búið að setja á þær merki og hægt er að fylgjast með ferðum þeirra. Þessar skjaldbökur fæðast í Japan og synda síðan til Mexíkó með viðkomu á Hawaii. Til að verpa eggjum fara þær síðan aftur á heimaslóðir í Japan, ekkert smáferðalag á þeim!

Skjaldbökurnar í sundlauginni Þessi var nú soldið hress

Skjalbökurnar voru ekkert sérstaklega fjörugar, en þær busluðu nú samt eitthvað smávegis. Sumar hreyfðu sig alls ekki neitt, lágu bara í kafi eins og þær væru í keppni um hver gæti haldið niðri í sér andanum lengur.

Þegar við vorum búin að fá nóg af skjaldbökunum röltum við meðfram ströndinni, söfnuðum skeljum og skoðuðum hákarlahausa. já, hákarlahausa! Hákarlarnir eru veiddir af fiskimönnum þarna rétt fyrir utan, "gert að þeim" um borð og hausunum er hent í sjóinn þaðan sem þá rekur á land. Þarna voru hamarhausar og venjulegir hákarlar, bara litlir samt.

Óliver að leika hafmeyju Hákarlshaus Pínulítill hamarhaus

Eftir að hafa leikið okkur með hákarlahausana ákváðum við að vígja fínu blautbúningana okkar og fara að snorkla. Í fyrstu var sjórinn dáldið kaldur en hann vandist fljótt. Við sáum alls kyns furðudýr, krossfiska, regnbogafiska, kuðunga og skeljar. Það fór þó aldrei svo að við fengjum ekki að sjá skötu á sjálfum Þorláki því ein stór og spræk synti þarna með okkur. Hún var heppin að við vorum nýbúin að borða, annars hefði getað farið illa fyrir henni.

Þarna erum við komin í blautbúningana Vala mermaid stendur undir nafni Vala og Óliver að þykjast vera utan á plötualbúmi

Jólin á íslenskum tíma

Mánudagur 24. desember

Við vöknuðum eldsnemma á aðfangadag eins og alla aðra daga í ferðinni. Í okkar fjölskyldu er venja að snúa sólarhringnum við á jólunum, en aldrei áður höfum við snúið honum í þessa átt. Sólin kom upp klukkan hálfsjö á morgnana og settist hálfsex. Eftir sólsetur skall á mikið myrkur og þrátt fyrir fjögur vasaljós (sem við keyptum á tilboði sérstaklega fyrir ferðina) var fátt hægt að gera seint á kvöldin. Við vöknuðum því alltaf snemma og fórum snemma í háttinn.

Í morgunmat fengum við nýbakaða klatta með ófáum sandkornum í, þrátt fyrir það smökkuðust þeir alveg frábærlega. Með klöttunum fengum við að sjálfsögðu eðalkaffi og líka appelsínusafa til hátíðarbrigða. Yfir morgunmatnum veltum við því fyrir okkur hvenær væri best að opna jólapakkana og eftir því sem við hugsuðum meira um það, því betur hljómaði að opna þá á íslenskum tíma. Við skreyttum því tjaldið í flýti, tróðum okkur inn með alla pakkana og rauluðum eitt jólalag. Þetta var klukkan tíu um morgun hjá okkur en klukkan sex á Íslandi.

Pakkarnir inní tjaldi Stella jólabarn Fleiri pakkar

Þegar við vorum búin að opna jólapakkana fór Óliver að sigla. Við hin keyrðum hins vegar niður í bæ, röltum aðeins um og fengum okkur að borða. Verkefni dagsins var að finna síma og það tókst. Aðeins tveir símar eru í þorpinu og báðir eru gervihnattarsímar. Það var því ekki laust við að okkur liði eins og Haraldi Erni (sá sem hringdi frá Norðurpólnum hérna um árið) þegar við hringdum til Íslands og buðum gleðileg jól. Síðar skoðuðum við barina í bænum. Líklega hefur ekkert okkar farið á jafnmarga bari á sjálfan aðfangadag jóla.

Á aðfangadagskvöld var messa í kirkju bæjarins. Við höfðum hugsað okkur að fara í hana, en þegar við fréttum að hún tæki a.m.k. fjóra klukkutíma hættum við snarlega við það og eyddum heldur kvöldinu á huggulegum fjölskylduveitingastað skammt frá tjaldstæðinu. Staðurinn er í eigu bandarískra hjóna um sextugt, Rachel og Larry. Hún eldar og stjórnar öllu á staðnum en hann þvælist um með bjórflösku og sígarettu og spjallar við gestina. Stemningin var ansi heimilisleg og fullt af öðru fólki af tjaldstæðinu var þarna líka.

Skeljar í jólamatinn

Þriðjudagur 25. desember

Jóladagur var hinn mesti rólegheitadagur fyrir flest okkar. Óliver fór að sigla en við hin slöppuðum af og átum á okkur gat eins og vera ber. Eftirmiðdeginum eyddum við á netinu og á svölunum hjá Larry og Rachel í sólinni. Nettengingin þeirra er í gegnum gervihnött og mínútugjaldið var heldur hærra en við eigum að venjast. Það sýnir hvað við erum miklir netfíklar að við létum okkur hafa það.

Á netinu Vala og Stella í sólinni á sjálfum jólunum!

Um kvöldið fórum við út að borða. Við pöntuðum okkur fisk, en áður en kom að honum fengum við nachos, súpu og skelfisk. Við vorum hálfhrædd við skelfiskinn þar sem hann var eitthvað svo nýr, en eftir að hafa úðað sítrónusafa í skelina létum við vaða. Þetta var nú með því skrítnasta sem við höfum fengið, fiskurinn var bæði slímugur, harður og mjúkur, en hann var mjög bragðgóður.

Skelfiskurinn Vala á jólunum Hópmynd

Við fórum fljótlega að sofa eftir matinn enda ekki margt sem hægt var að gera eftir myrkur. Við lásum þó jólabækurnar við vasaljós áður en við sofnuðum, alveg eins og maður á að gera á jólunum!

Kajakar og flugdrekar

Miðvikudagur 26. desember

Þegar við vöknuðum var blankalogn og sjórinn var spegilsléttur, nema náttúrulega þegar höfrungarnir sýndu okkur listir sínar. Á flóanum sáum við fimm höfrunga sem syntu alveg uppvið ströndina og stukku uppúr sjónum annað slagið eins og þeir væru að eltast við sundbolta. Við ákváðum að leigja okkur kajaka og fengum þrjú stykki, tvo eins manns og einn tveggja manna. Það var mjög gaman að róa, sjórinn var tær og fullt af alls kyns fuglum voru þarna í kringum okkur.

Kajakar í þremur litum Stella eskimóabarn Kristján að slaka á efir róðurinn

Eftir rúman klukkutíma byrjaði að hvessa all svakalega og bátarnir gengu allir til. Við ákváðum þá að snúa við og fara í land. Þegar við komum loksins að landi var komið hávaðarok og þá var næsta mál á dagskrá að bjóða Greg og Kathy upp á íslenskar pönnukökur.

Í staðinn fyrir að skella okkur í pönnukökurnar med det samme tók Greg fram flugdrekana sína. Við prófuðum tvær gerðir; einn risastóran og annan aðeins minni. Það var dáldið erfitt að halda sér niðri á jörðinni í öllu þessu roki og þetta tók ansi mikið á. Sum okkar gátu varla hreyft sig daginn eftir fyrir harðsperrum.

Óliver .. .. að toga .. .. í risastóran flugdreka!

Við mælum með flugdreka myndasyrpunni, sumar myndirnar lýsa gífurlegum átökum við rokið og mikil einbeiting skín úr andlitunum.

Pönnukökurnar runnu ljúflega niður eftir allt þetta púl og kaffið var geggjað sem aldrei fyrr.

Á safninu

Fimmtudagur 27. desember

Niðri í bænum er lítið safn, bæði sögusafn og náttúrugripasafn. Við fórum þangað á þriðja í jólum og skemmtum okkur ansi vel. Þarna var hægt að skoða alls konar kúreka- og indíánadót og einnig alls kyns beinagrindur og pöddur. Við sáum meðal annars pínulitla sporðdreka sem búa í sandinum, þeir voru einungis á stærð við húsflugur en bit þeirra eru víst mjög sársaukafull, en sem betur fer ekki banvæn. Mikið vorum við fegin að hafa ekki séð neina lifandi sporðdreka á tjaldstæðinu, okkur hefði ekki orðið rótt.

Eyðimerkurhauskúpa Beinaagrind úr hval Fiskur

Við fórum og fengum okkur "aðalrétt" Bahía de Los Angeles, taco pescado. Það er tacoskel með steiktum fiski og grænmeti innan í, hræódýr og góður matur. Þessu skoluðum við niður með Tecate, aðalbjórnum, eins og svo oft áður. Hægt er að fá taco pescado hvar sem er í bænum, meira að segja á subbubúllum. Það var einmitt það sem við gerðum. Til marks um hversu mikil subbubúlla þetta var, var klósettið útikamar með lausri krossviðarplötu fyrir hurð sem þurfti að lyfta til að loka dyragættinni.

Óliver Skjaldbaka, Stella og Vala Klósettið bleika og krossviðarplatan

Úthverfi Ensenada könnuð

Föstudagur 28. desember

Við lögðum af stað frá Bahía de Los Angeles eldsnemma um morguninn og keyrðum svo að segja allan daginn. Við fundum tjaldstæði undir kvöld í úthverfi Ensenada og ákváðum að vera þar um nóttina. Tjaldstæðið var hálf ómerkilegt, við tjölduðum eiginlega bara niður í fjöru, en það var samt alveg ágætt. Við áttuðum okkur reyndar á því morguninn eftir að á tjaldstæðinu bjuggu bæði api og ljón, only monkey and one lion. Ljónið var skítugt og vansælt í alltof litlu búri, en apinn var hress og ullaði framan í ljósmyndarann.

Það reið kúreki framhjá tjaldinu okkar Apinn ullaði bara Þetta er kisa, ekki ljón!

Glöggir lesendur sjá að myndin lengst til hægri er ekki af ljóni heldur af kisu. Ljónamyndirnar má sjá hér.

Ekkert kvennaklósettVið fórum á enn einn subbustaðinn til að borða kvöldmat. Að þessu sinni fengum við okkur jumbo burrito og ansi ótæpilega af salsasósu með. Hún leit ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega sterk, en munnurinn logaði allur á eftir og okkur klæjaði í eyrun. Eftir matinn spiluðum við púl á mesta karlastað sem um getur. Þangað hafði ábyggilega ekki komið kvenmaður áður, einungis var eitt klósett á staðnum og það meira að segja merkt körlum, og þeir sem fóru á klósettið gerðu bara eins og þeir voru vanir, að pissa með opnar dyr!

Þar sem við vorum óvenju lengi á fótum þetta kvöld, eða alveg þangað til klukkan var að ganga ellefu, gekk vel að sofna þrátt fyrir hrikalegan hávaða í hafinu.

Miðborg Ensenada gerð góð skil

Laugardagur 29. desember

Þegar við vöknuðum voru Greg og Kathy farin. Þau vildu bara drífa sig yfir landamærin áður en að traffíkin byrjaði og nenntu ekkert að stoppa til að skoða Ensenada. Við urðum því eftir og hengum í bænum.

Við keyrðum niður í miðbæ og lögðum bílnum. Við okkur blöstu skemmtiferðaskip full af japönskum túristum og Bandaríkjamenn í stórum hópum. Við vorum greinilega að nálgast landamærin.

Við keyptum svona rúmteppi Vala Svala Tres amigos

Eftir að hafa skoðað búðir heillengi settumst við á útikaffihús og pöntuðum okkur Tecate, nema hvað! Okkur dauðbrá þegar allt í einu voru komin fjögur glös af tekíla á borðið hjá okkur, og það fyrir hádegi. Við útskýrðum vandræðalega fyrir þjónustustúlkunni að við værum ekki alveg tilbúin í eitthvað svona sterkt svo snemma dags. Af viðbrögðum hennar að dæma vorum við ekki þau einu sem höfðu afþakkað þessi ósköp.

Tequila

Á þeim stutta tíma sem við vorum í Ensenada urðum við sérstaklega vör við drukkna Bandaríkjamenn. Þeir mega náttúrulega ekki vera drukknir á almannafæri í heimalandinu, og nota því tækifærið þegar þeir skreppa yfir landamærin. Þeir stungu voðalega mikið í stúf við annars friðsæla götuna.

Við keyptum eiginlega ekki neitt í Ensenada, bara röndótt rúmteppi og litla gjöf handa mömmu og pabba.

Um kvöldið keyrðum við síðan í átt að landamærunum. Okkur tókst að villast pínu í Tijuana og vorum næstum farin til Tecate, heimabæjar bjórsins góða. Við ákváðum að láta það bíða um sinn og snerum því við. Á landamærunum er sérstakt samfélag betlandi Indíána og Mexikóa sem sífellt eru að selja manni eitthvað drasl. Meðfram veginum voru sölubúðir fullar af dóti, jesústyttum og gervikaktusum. Viðskiptin ganga líklega ágætlega hjá þeim, hvað er hægt að gera annað en að kaupa smádót þegar fólk þarf að bíða í röð í þrjá klukkutíma á landamærunum?

Sölumenn með Jesú Indjáni að betla Biðröðin

Við biðum í þrjú korter við hliðin og komumst greiðlega í gegn þrátt fyrir að hafa spilað Stagger Lee í botni áður en það kom að okkur. Ef landamæravörðurinn hefði heyrt textann hefðum við ábyggilega ekki komist svona auðveldlega í gegn!

Um leið og við keyrðum í gegn tók rigningin á móti okkur, á sama stað og hún hafði kvatt okkur fyrir jól. Af þessu drógum við þá ályktun að það hefði rignt öll jólin í Bandaríkjunum...

Komin heim aftur

Sunnudagur 30. desember

Við gistum eina nótt í Pasadena en keyrðum til Santa Barbara um morguninn. Ferðin gekk vel, og mikið voðalega var nú gott að vera komin heim.

Ítarefni

  1. Litmyndirnar, gróflega raðað eftir dögum
  2. Svarthvítu myndirnar
  3. Myndirnar sem Vala og Óliver tóku á stafrænu myndavélina sína
  4. Vefsíða um Bahía de Los Angeles
  5. www.xstreamline.com