Frásögn af lífi í ellefu víddum
Á rölti í garði nokkrum í New Canaan gengum við framhjá tjörn. Þórdís Ólöf sat á háhest hjá pabba sínum og og lét nokkra gullmola falla af því tilefni.
Hún var ekkert að spá í hvað við hin vorum að tala saman heldur spjallaði hún við sjálfa sig eins og henni væri borgað fyrir það og var greinilega að fylgjast með umhverfinu í kringum sig: Sko, sjórinn. Mamma fer í sjósund. Þórdís fer í heita pottinn.
Áslaug gat ekki sofnað í gærkvöldi sama hvað hún reyndi en svefninn hjá henni fór í rugl eins og okkur hinum eftir heimkomuna frá Ameríku. Þegar hún var búin að reyna ýmsar afsakanir til þess að mega fara fram úr, eins og til dæmis ef ég sofna þá verður mér svo illt í nefinu, gafst hún upp og reyndi að hafa ofan af fyrir sjálfri sér.
Hún setti hendurnar upp í loftið, horfði á puttana á sér og hvíslaði svo: fimm plús fimm eru tíu, sex plús fjórir eru líka tíu. Og svo taldi hún alla puttana og allar tærnar en samtals taldi hún upp að tuttugu og einum.
Árið hófst með því að ég byrjaði í meistaranámi í ritstjórn og útgáfu en restin af familíunni hélt áfram sínum störfum, Kristján í bankanum og stelpurnar á Sólhlíð.
Sumarfrí ársins var ferðin til afa og ömmu á Bretagne en þar dvöldum við í góðu yfirlæti í heilar þrjár vikur. Ýmislegt dreif á daga okkar þar, við reittum arfa í gulrótarbeðinu, bökuðum pizzu í brauðhúsinu, settum saman stærðarinnar eplapressu og nutum þess að láta dekra við okkur. Stelpurnar urðu bestu vinkonur Snata og Þórdísi fór mjög fram í tali á þessum tíma. Áslaug var eftir sumarfríið búin að læra ýmislegt í frönsku og orðin mjög sjálfbjarga um ýmsa hluti eftir að hafa fengið að vera sjálfala á lóðinni í Lande Basse.
Útilega ársins var tveggja nátta dvölin í Þakgili á Mýrdalsöræfum. Nýja tjaldið var frábært en í ljós kom að endurnýja þurfti vindsængina. Það hefur þegar verið gert auk þess sem við splæstu í gashitara sem verður notaður í útilegum ársins 2010.
Vinnutörn ársins var í kringum Bókmenntahátíð í Reykjavík en sumarið hjá mér fór í að undirbúa hana.
Fótboltafélag ársins er FC Tinna. Ég hef ekki mætt á margar æfingar en stefni að bætingu í þeim efnum þegar táin hefur jafnað sig.
Tábrot ársins er ekki endilega tábrot. Stiginn í New Canaan, CT fór heldur illa með stóru tána á vinstri en ég er að verða betri. Hef ekki fengið faglegan úrskurð um alvarleika áverkans.
Kolkrabbi ársins var í fiskisúpunni á gamlárskvöld.