Brúðkaup Stellu og Kristjáns

Hjónakornin
Morgunblaðið/Ásdís
Hjónavígsluvottorð, kampavín og sítengd tölva. Kristján og Stella með 20. öldina að baki.

Yfirlit

Prakkarastrikið

Við ákváðum á sunnudegi að gifta okkur fyrir Rómarferðina og gera hana þannig að brúðkaupsferð.

Á mánudegi höfðum við sambandi við sýslumann og fengum að vita hvaða vottorð við þyrftum og hvað athöfnin kostaði. Þá var hugmyndin sú að gifta okkur á fimmtudeginum án þess að láta nokkurn mann vita og bruna síðan útá flugvöll strax á eftir. Ég (Stella) fór og hitti pabba, sem átti að vera svaramaðurinn minn, og við náðum í plöggin sem þurfti á Hagstofuna. Á meðan bókaði Kristján tíma fyrir okkur hjá sýslumanni klukkan fjögur á fimmtudeginum.

Sem ég er að fara til Sýslumannsins í Reykjavík hringir Kristján í mig og segir mér að flugvallarstarfsmenn í Róm hafi boðað til verkfalls og því hafi fluginu verið flýtt, í stað þess að fljúga klukkan sjö um kvöldið áttum við nú að fljúga klukkan fjögur síðdegis. -Akkúrat þegar við ætluðum að vera að gifta okkur!

Ég fór til sýslumannsins og reyndi að fá tímanum breytt í klukkan fjögur miðvikudaginn 25. júlí 2001. En þá var fyrirvarinn orðinn alltof stuttur því vottorðum frá Hagstofunni verður víst að skila fjórum dögum fyrir hjónavígslu og nú voru bara tveir dagar til stefnu. Ég setti þá upp hvolpasvipinn og vældi: já en flugvélin fer fyrr og þá missum við af brúðkaupsferðinni...

Þetta svínvirkaði og við fengum sérstaka flýtimeðferð því sýslumanni fannst þetta svo sniðugt hjá okkur.

Fyrir vígsluna þurftum við að borga 4600 kr og á kvittuninni stóð:

  Borgaraleg hjónavígsla	1 stk.	4.600 

Brúðkaupsdagurinn

Athöfnin fór fram í sal í húsi Sýslumannsins í Reykjavík. Allt gekk vel og flestir svaramenn mættu tímanlega. Vígslan tók innan við fimm mínútur og var bæði óformleg og hátíðleg. Það var reyndar smá ruglingur með það hvenær við ættum að kyssast en við fundum útúr því.

Hjá Sýsló Fyrsti kossinn

Eftir athöfnina hjá sýslumanni komum við hingað heim og skáluðum með svaramönnunum. Þeir voru hjá okkur til klukkan sex en þá mætti blaðamaður frá Morgunblaðinu á svæðið.

Blaðamaðurinn tók viðtalið (sem var skipulagt áður en við ákváðum að gifta okkur, og átti að fjalla um allt annað en brúðkaupið) og síðan kom ljósmyndari frá Morgunblaðinu og tók myndir. Eftir allt kampavínið var Kristján orðinn nógu frakkur til að biðja hann að taka líka brúðarmyndir fyrir okkur að eiga.

Stafrænt afrit af viðtalinu má finna hér, í boði Sollu.

Um kvöldið fórum við út að borða á veitingastaðinn Við Tjörnina með svaramönnunum. Við borðuðum þríréttaða máltíð og fengum rosalega gott hvítvín með. Í forrétt fengum við fiskisúpu. Kristján fékk sér síðan gellur eftir kenjum kokksins í aðalrétt en Stella fékk sér grillaðan steinbít með ólívum. Í eftirrétt urðu engiferís og frönsk súkkulaðikaka fyrir valinu.

Brúðkaupið okkar var kannski ekki alveg hefðbundið, en við erum ótrúlega ánægð með daginn.

Tilkynningin

Við sögðum engum frá brúðkaupinu heldur skildum eftir tilkynningu á dagbókinni.

Farin til Rómar, í brúðkaupsferð!
Við erum þá farin af stað suður til að tjútta við páfann.

Í gær gerðum við smá prakkarastrik og gengum í hjónaband! Sjá nánar hér.

Stella með vottorðið

Brúðkaupsdeginum verða gerð betri skil þegar við komum heim. Það er nefnilega smá saga sem fylgir.

Ciao,
Herra Kristján og Frú Stella

Við vonum að engum hafi sárnað að frétta af brúðkaupinu með þessum hætti, en við gátum bara ekki sleppt þessu tækifæri til prakkarastriks.

- og þvílíkt prakkarastrik!

Brúðkaupsferðin

Á flugstöð Leifs Eiríkssonar sögðum við Kára og Dodda frá prakkarastrikinu okkar. Þeir trúðu okkur ekki í fyrstu en þegar þeir áttuðu sig á því að við vorum að segja satt lofuðu þeir að kaupa handa okkur kampavín við fyrsta hentuga tækifæri.

Við vorum ekki alveg viss hvernig væri best að segja hinum ferðafélögunum að þeir væru óvænt orðnir þátttakendur í brúðkaupsferð. Stella hvíslaði leyndarmálinu að nokkrum stelpnanna og sér í lagi fékk Brynhildur að vita þetta fyrsta kvöldið þegar allur hópurinn var saman úti að borða.

Brynhildi fannst þetta svo geggjað að hún stóð upp og lagði til að það yrði skálað fyrir brúðhjónunum! Samkoman tók andköf og það tók menn nokkrar sekúndur að átta sig á stöðunni. Svo rigndi yfir okkur hamingjuóskunum og við stóðum upp og kysstumst.

Frá Kára og Dodda:

Vegna ítrekaðra procrastineringa náðum við því miður ekki að bjóða brúðhjónunum upp á kampavín. Verðandi rektor MR frétti nefnilega af prakkarastrikinu og varð okkur fyrri til. Við buðum þeim þó upp á Martini Bianco, gin og tonic og bjór i staðinn en skömmumst okkar samt.

Nánar var fjallað um ferðina á dagbókinni, sjá lok júlí og byrjun ágúst.

Myndir

Svarthvítar myndir frá brúðkaupsdeginum.

Hjá sýslumanni klukkan fjögur Brúðurin Hjónavígsluvottorð

Litmyndir, líka frá brúðkaupsdeginum.

Hjá sýslumanni, nýgift Vottorðið rannsakað Frú Stella og tengdapabbi

Kveðjur

Við fengum skemmtilegar kveðjur sendar í ummælunum á netdagbókinni okkar.

Þorsteinn sendi okkur tölvupóst með titlinum Demantar og spangól:

Þið eru ótrúleg.

Mín fyrstu viðbrögð eru að spangóla!!! : )) "The year of the Diamond Dogs".

Það vildi svo til að ég var að lesa 1984 eftir Orwell á netinu (þar sem hún er til í heild sinni) þegar ég svissaði yfir á dagbókina ykkar. Umsvifalaust kviknaði tónlist, ....ímyndaður ljósameistari íbúðarinnar lék sér með flöktandi kastara. Ég og Bowie lesum saman rómantískasta kafla bókarinnar.... Hann fer að humma eitthvert lag á meðan. We are the Dead.

[hér kom tilvitnun í 1984]

Gegnum súrt og sætt segja prestarnir. Þið eruð prisipp-fólk og væruð líklegir kandídatar til að grafa undan stóra bróður í heimi Orwells. Ég vona hins vegar að þið þurfið aldrei að fara í gegnum þann eld og brennistein sem hann býður upp á.

Gegnum þykkt og þunnt. Þið farið nú í gegnum þykkildin og þunnildin saman, sem "ægtepar".

Innilega til hamingju,
Steini

Árdís sendi okkur tölvupóst með eftirfarandi mótmælum:

Til hamingju med brúðkaupið!
Og góða skemmtun í Róm.

En gátuð þið ekki beðið þar til 20. febrúar á næsta ári?

20. febrúar 2002
20.02 2002
2002 2002
20022002

Dagsetning sem ekki er hægt að gleyma...

Árdís

Nokkrum dögum eftir að við komum heim frá Róm mættum við Steina fyrir utan íbúðina okkar á Eggertsgötunni. Við vorum að koma heim og Steini var að banka hjá nágrannanum til að skilja eftir hjá honum pakka handa okkur.

Steini var að fara til Síberíu seinna um kvöldið og mátti því engan tíma missa, hann varð að koma pakkanum til okkar. Pakkinn var falleg kaka og eftirfarandi bréf:

Rvík, águst, 2001

Hr. Stjáni og frú Stella

Ég hef aldrei kunnað að búa til hjónabandssælu, uppáhaldskökuna mína, og finnst því tilvalið að læra það núna. Kakan sem ég gerði varð hins vegar að einhvers konar afbrigði þegar kom að sultunni því ég átti í slíkan dýrindis lager af sultum í ísskápnum. Hún er því fjórskipt, með mismunandi bragði *1. Hjónabandssælan er því eins og árstíðirnar, þar sem skiptast á skin og skúrir. Það minnir náttúrulega á að hjónabandið er hringrás sem fer í gegnum mismunandi tímabil. Því ætti kakan að vera svolítið misgóð á bragðið, sumar sneiðar súrari en aðrar þó sætleikinn sé alltaf í fyrirrúmi.

Til hamingju með hjónabandssæluna!

Steini      

*1 Önnu rabarbara, rifsberja, heimalöguð rabarbara og bláberja.

Auk þeirra bréfa sem hér er getið fengum við ótal sms-skeyti, kveðjur í gestabókina á froskur.net og fleiri tölvupósta. Takk fyrir kveðjurnar!

Framhald

Það var engin brúðkaupsveisla þetta árið. Við hefðum getað slegið upp veislu í skyndi en fyrirvarinn var of skammur fyrir ástvini og ættingja í útlöndum.

Stefnum að svaka veislu næsta sumar.

Gestabók

Ekki gleyma að skrifa skemmtilega kveðju í brúðkaupsgestabókina okkar! Ef ykkur dettur ekkert í hug, má líka bara segja hæ :-)